Persónulýsing – Afternoon Tea

Í tilefni þess að í dag rennur upp Afternoon mánuður, mánuðurinn hans Tea, er hér persónulýsing sem ég skrifaði einu sinni um hann í Ritsmiðju Kópavogs. 🙂  Í raun eru þetta hugleiðingar hans.

Afternoon Tea

6aa8f-tea

Kubbslegri hönd er rennt í gegnum stutt mosagrænt hár og blaðgræn augu horfa á krakkana, er skrifa sem óðir væru.  Hann hlær góðlátlega og klórar sér í mosagrænu alskegginu.  Barnabarnabarn hans, sem situr í öftustu röð, skrifar af kappi, með tunguna í munnvikinu, einbeitt á svip.  Hann er dauðfeginn yfir því að hún sé hætt að hugsa um byltingar og farin að lifa lífinu eins og venjuleg táningsstúlka.  Tja, heimurinn mætti kannski vera betri, en er nokkuð víst, að ef þú hendir þeim sem hafa stjórnað í gegnum ár og aldir, burt eins og tepokunum sem þú ert hættur að nota, að þú getir verið viss um að eitthvað betra komi í staðinn?  Nei, það verður fyrst að breyta hugmyndafræðinni.  Hún er það sem stjórnar fólkinu.  Það gerir ekki hlutina að ástæðulausu.  Ég ætti að vita það eftir fimmhundruð og eitt ár.  Yngsta barn mitt trúði ekki á hana og því var það aflífað fyrir að vilja breyta henni…vesalings drengurinn minn, sonur hans og sonardóttir…  

„Þegiðu Tea!”  Myndi Nightmare örugglega segja ef hann heyrði til mín núna.  „Þau eru öll svikarar og eiga enga samúð skilið,” myndi hann bæta við, þar sem ég bæri hendurnar fyrir mig, bítandi á vör.  Líkt og þau væru jafn miklir svikarar, eins og hún, sem hóf stríðið fyrir níuhundruð sjötíu og sjö árum síðan.  Kennir saga manni aldrei neitt?  Er hún ekkert annað en skemmtilegur fróðleikur um gamla daga?  Til hvers er ég að kenna hana, ef hún kennir í raun engum neitt???  

Af hverju sting ég aldrei upp í þennan mann?  Af hverju læt ég hann komast upp með þetta allt í minn garð og fjölskyldu minnar!?  Hann hefur verið mun styttra í þessari stjórn heldur en ég, ekki nema fimmtán ár og er mörg hundruðum árum yngri.  Samt lætur hann, eins og hann ráði öllu.  Það er allt út af þessari hugmyndafræði.  Mér ekki treyst til neins.  Ekki eftir þetta sem gerðist með son minn.  Ég væri löngu hættur, ef ekki væri fyrir barnabarnabarn mitt.  Ég verð að vernda það fyrir þessum manni.  Sama hvort að hún hefur trú á mér eða ekki.  Segir að ég sé bara upp á punt í stjórninni.  Sonur minn var sama sinnis og því fór svona illa fyrir honum.  Ég verð að bæta fyrir það, sem mér tókst ekki að gera fyrir tuttugu og sex árum, fyrir hann og son hans...

Í miðjum hugleiðingum sínum, sýpur hann á grænum bollanum og hopar hæð sína í loft upp, sem er frekar lítil.  Kaffi!  Hver breytti innihaldi bollans?  Ég þoli ekki kaffi!  Hryllir sig og breytir kaffinu, með mætti sínum í grænt te og raular lagstúf um allar tetegundir heimsins.  Ah, þetta er betra.  Blæs á það, en er illilega brugðið, þegar hann lítur á klukkuna á veggnum.  Með miklum ákáfa klappar hann saman lófunum og segir:„Jæja, telaufin mín.  Þá er tíminn búin.  Vinsamlegast skiljið eftir blöðin á borðinu.”  Óánægjustunur berast frá öllum bekknum, sem gengur þó frá skriffærunum og streymir út um dyrnar.  Er hann stendur upp, flaksar hvíti kirtillinn um fótleggi hans og það eina sem heyrist í gervallri kennslustofunni, er þegar að sandalar hans stíga létt á gólfið, við söfnun prófblaðanna.

Færðu inn athugasemd